sunnudagur, 1. janúar 2017

Áramótakveðja til stuðningsmanna Alþýðufylkingarinnar

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs. Árið 2016 hefur verið nokkuð viðburðaríkt hjá Alþýðufylkingunni, og segja má að
hún hafi komist á kortið, og margfaldast sá fjöldi sem þekkir nokkuð til, og finnur til samstöðu með stefnu Alþýðufylkingarinnar. Á komandi ári liggja fyrir ekki síður mikilvæg verkefni, þar sem skipulagsleg uppbygging flokksins er í forgrunni. Í nóvember s.l. var stofnað fyrsta svæðisfélag Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og við höfum sett okkur það markmið að stofna félög um allt land fyrir landsfund í byrjun mars.

Það er mikil áskorun að taka sér það verkefni að sameina alþýðuna til baráttu gegn auðvaldinu til að koma á nýju þjóðskipulagi. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað. Ég er sannfærður um að okkur tekst á komandi misserum að efla Alþýðufylkinguna og auka stöðugleika í starfi hennar, þannig að hún verði forystuafl á öllum sviðum stéttabaráttunnar. Ég vonast til að hitta mörg ykkar í starfi á næstunni og saman munum við gera árið 2017 að mikilvægu ári í uppbyggingu AF.

Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar

föstudagur, 16. desember 2016

Útgáfuhóf byltingardagatals á morgun laugardag

Byltingardagatal fyrir árið 2017 er komið út, í tilefni af 100 ára afmæli októberbyltingarinnar, tekið saman af Vésteini Valgarðssyni. Að útgáfunni standa Alþýðufylkingin, DíaMat, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur. Þetta eigulega og fróðlega dagatal kostar 1500 kr. og fæst í bókabúðinni Sjónarlind á Bergstaðastræti og hjá félögunum sem gefa það út.

Útgáfuhóf verður haldið kl. 15 laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Fram koma Bjarki Karlsson ljóðskáld, Sigvarður Ari Huldarsson trúbador o.fl.  

Opið bréf til forseta Íslands

Herra forseti Íslands.
Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður
Alþýðufylkingarinnar

Í ljósi þess vandræðagangs sem einkennir tilraunir þeirra flokka sem sitja á Alþingi til að reyna að mynda ríkisstjórn viljum við hvetja þig til að leita til Alþýðufylkingarinnar og veita henni umboð til myndunar utanþingsstjórnar.
Núverandi stjórnarkreppa varpar ljósi á djúpstæða kreppu í samfélaginu. Þó að mikið sé talað um efnahagslegt góðæri, nær það aðeins til lítils hluta þjóðarinnar. Auk þess blasir við að þegar næsta efnahagsbóla springur verður það að óbreyttu enn á ný hinn fátæki skari sem verður látinn bera byrðarnar.

Öll stjórnmál í nútíma samfélagi snúast um það hvort áhersla er lögð á félagslegar lausnir eða hvort markaður kapítalismans er látinn um að móta efnahagslífið og skiptingu samfélagslegra gæða. Undanfarna áratugi hefur markaðshyggjan stuðlað að ört vaxandi ójöfnuði á Íslandi og auknu braski á kostnað verðmætasköpunar. Þess vegna er nauðsynlegt að vinda ofan af markaðsvæðingunni með auknu vægi félagslegra lausna til að koma á jafnvægi og meiri jöfnuði í samfélaginu.

Alþýðufylkingin kom til nýliðinna kosninga með ítarlega stefnuskrá, Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar, sem byggðist á áformum um félagsvæðingu innviða samfélagsins þar sem lykilatriði er að fjármálakerfið verði rekið félagslega, til að það hætti að draga til sín öll tiltæk verðmæti í samfélaginu og svelti þannig velferðina og aðra mikilvæga þjónustu við almenning.

Aðrir flokkar hafa ýmist sett fram óljósar og samhengislausar hugmyndir eða eru beinlínis handbendi auðstéttarinnar svo hún geti haldið áfram að raka saman gróða á kostnað alþýðunnar. Þess vegna geta þeir ekki komið sér saman um lausnir á aðsteðjandi vandamálum, enda vilja þeir ekki ráðast að orsökum þeirra.

Í samfélaginu er uppi hávær og réttmæt krafa um eflingu heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Heilbrigðiskerfið hefur verið svelt um árabil og verulegt átak þarf til að það rétti úr kútnum. Bæði þarf að koma til aukin félagsvæðing og þar með betri nýting fjármuna og einnig veruleg aukning fjárveitinga. Menntakerfið hefur verið fjársvelt lengi og stendur frammi fyrir alvarlegum vanda. Nauðsynlegt er að verja auknu fé til skólanna og grípa til margvíslegra úrræða til að afstýra vaxandi kennaraskorti, sem getur varað lengi að óbreyttu.

Ýmsir flokkar taka undir nauðsyn þess að taka á þessum vandamálum, en Alþýðufylkingin ein hefur haldið á lofti nauðsyn þess að sækja peningana þangað sem þeir eru í raun og koma í veg fyrir að fjármála­fáveldið í landinu hafi opinn aðgang að því að féfletta samfélagið gegnum fjármálakerfið og aðrar samsteypur auðstéttarinnar. Án umbóta af þessu tagi verður velferðin ætíð afgangsstærð eftir að auðmenn hafa fleytt rjómann, og hrekst inn í vítahring einkavæðingar og niðurskurðar, hvað sem líður fögrum áformum.

Forsetinn er kosinn af þjóðinni og er æðsti trúnaðarmaður hennar. Ábyrgð hans hnígur því að hagsmunum þjóðarinnar og auknum lífsgæðum hennar. Í ljósi þess áréttum við hvatningu um að Alþýðufylkingunni verði falið að mynda utanþingsstjórn til að koma á jafnvægi og auknum jöfnuði í íslensku samfélagi.

Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

miðvikudagur, 14. desember 2016

Byltingardagatal 2017, útgáfuhóf lau. 17. des

Byltingardagatal fyrir árið 2017 er komið út, í tilefni af 100 ára afmæli októberbyltingarinnar, tekið
saman af Vésteini Valgarðssyni. Að útgáfunni standa Alþýðufylkingin, DíaMat, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur.

Útgáfuhóf verður haldið kl. 15 laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Fram koma Bjarki Karlsson ljóðskáld, Sigvarður Ari Huldarsson trúbador o.fl.


Þetta eigulega og fróðlega dagatal kostar 1500 kr. og fæst í bókabúðinni Sjónarlind á Bergstaðastræti og hjá félögunum sem gefa það út.

mánudagur, 5. desember 2016

Opinn félagsfundur Alþýðufylkingar í Reykjavík

Annað kvöld: 6. desember heldur Alþýðufylkingin félagsfund með opnum stjórnarfundi, kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Dagskrá fundarins:
1. Undirbúningur fyrir stofnun svæðisfélaga Alþýðufylkingarinnar;
2. undirbúningur fyrir landsfund;
3. önnur mál.
Nýir félagar og gestir eru velkomnir (svo fremi þeir séu ekki nasistar eða barnaníðingar).
Heitt verður á könnunni.

þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Af stofnfundi Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi var haldinn laugardaginn 26. nóvember 2016 í Heiðarbæ. Formaður er Björgvin R. Leifsson. Á fundinum voru samþykktar eftirtaldar ályktanir:

1. Ályktun um kjarabaráttu grunnkólakennara og afskiptasemi forseta ASÍ
Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi haldinn 26.11.2016 í Heiðarbæ lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu grunnskólakennara og fordæmir um leið afskiptasemi forseta Alþýðusambands Íslands og annarra aðila af baráttunni.

2. Almenn stjórnmálaályktun
Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi haldinn 26.11.2016 í Heiðarbæ skorar á væntanlega ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga að stöðva nú þegar alla einka- og markaðsvæðingu á innviðum samfélagsins en fara þess í stað að félagsvæða þessa sömu innviði á nýjan leik. Stórt skref í þá átt væri að félagsvæða fjármálakerfi landsins að fullu.

Félagsvæðing gegn markaðsvæðingu!

mánudagur, 28. nóvember 2016

Stuðningur við grunnskólakennara

Alþýðufylkingin Norðausturkjördæmi lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu grunnskólakennara og fordæmir um leið afskiptasemi forseta Alþýðusambands Íslands og annarra aðila af baráttunni.

Samþykkt á stofnfundi Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi
Heiðarbæ í Reykjahverfi 26. nóvember 2016

föstudagur, 25. nóvember 2016

Hvammstangi á sunnudag - minnum á stofnfund í Norðausturkjördæmi á morgun laugardag

Fundur Alþýðufylkingarinnar á Hvammstanga
Alþýðufylkingin verður með fund á kaffihúsinu Hlöðunni, Brekkugötu 2, Hvammstanga, sunnudaginn 27. nóvember 2016, kl. 16:00.
Fundarefni: Fyrirhuguð stofnun kjördæmisfélags Alþýðufylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar mætir og spjallar við áhugasama.
Ekki þarf að skrá sig fyrirfram og fundurinn er opinn öllum áhugasömum.
Kaffi og meðlæti selt á staðnum.

Auk þess minnum við á stofnfund kjördæmisfélags í Norðausturkjördæmi á laugardag, sjá auglýsingu.

miðvikudagur, 23. nóvember 2016

Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi á laugardag

Alþýðufylkingin boðar til stofnfundar kjördæmisfélags flokksins í Norðausturkjördæmi í Heiðarbæ í Reykjahverfi laugardaginn 26. nóvember 2016 kl. 15:00.
Nýir félagar velkomnir!
Fundargjald er að lágmarki kr. 1.000,- (fundaraðstaða og kaffi er innifalið) en hægt er að kaupa bæði mat og gistingu á staðnum og fellur þá fundargjald niður.
Verð á kvöldmat er kr. 4.000,- (líkleg tímasetning er kl. 18)
Verð á gistingu (morgunverður innifalinn) er kr. 9.000,- (tveggja manna herbergi) eða 2.500,- (svefnpokapláss).
Heitur pottur á staðnum :)
Nánari upplýsingar veitir Björgvin R. Leifsson í síma 8636605 eða tölvupósti brl@brl.is
Félagsvæðing gegn markaðsvæðingu!

föstudagur, 18. nóvember 2016

Alþýðufylkingin keik: svæðisfélög í undirbúningi

Þótt Alþýðufylkingin hefði gjarnan viljað fá fleiri en 575 atkvæði í kosningunum í október, erum við ánægð með þann árangur sem við náðum við að kynna flokkinn og málstað hans. Nýja félaga hefur drifið að undanfarið.

Ólíkt öðrum flokkum erum við ekki háð þingsætum eða opinberum styrkjum, enda höfum við starfað án slíks frá upphafi. Nú fylgjum við kosningabaráttunni eftir með uppbyggingu flokksins. Á næstu 6-8 vikum stendur til að stofna kjördæmafélög.

Ef þið viljið vera með, en hafið ekki ennþá gengið til liðs við flokkinn, er ekki eftir neinu að bíða.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður