Tuesday, October 25, 2016

Örmyndband um stefnu Alþýðufylkingarinnar

Ert þú í hópi þeirra sem vilja fá boðskapinn skorinn út í pappa fyrir sig á fjórum mínutum? Skoðaðu þá kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar á heimasíðu RÚV!

Vestmannaeyingar og Alþýðufylkingin

Eyjafréttir greindu frá því á dögunum, að enginn Vestmannaeyingur væri á framboðslista
Vésteinn Valgarðsson
Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Því miður verður ekki betur séð en að það sé rétt, þó með þeim fyrirvara að ég veit ekki hvaðan allir á listanum eru ættaðir. En það er annað mál.

Góða fréttin er hins vegar að Vestmannaeyingar eiga þess kost að kjósa Alþýðufylkinguna í þessum kosningum. Þess áttu þeir ekki kost í síðustu Alþingiskosningum, ekki frekar en aðrir utan Reykjavíkur. Við viljum auðvitað að sem flestir geti kosið Alþýðufylkinguna, þannig að við settum það ekki fyrir okkur að heilu byggðarlögin vantaði fulltrúa á listann -- það verður bara að hafa það. Enda berjumst við fyrir hagsmunum og velferð alþýðunnar alls staðar í landinu, en ekki í einstökum byggðarlögum.

Alþýðufylkingin er ekki í þeim bransa sem boðar kjördæmapot eða bitlinga. Enginn sem gengur til liðs við okkur getur vænst þess að fá feitt embætti að launum. Hins vegar bjóðum við upp á mikla vinnu, óeigingjarnt sjálfboðastarf og baráttu sem mun vonandi á endanum skila sér í betri lífskjörum fyrir alla alþýðu í landinu.

Megináherslur okkar eru stóru þjóðfélagsmálin: Félagslegt réttlæti, félagsvætt fjármálakerfi og fullveldi landsins. Þetta þrennt helst í hendur: Félagsvæðing er andstæðan við markaðsvæðingu og þýðir að starfsemi sem er rekin í gróðaskyni sé breytt í samfélagslega þjónustu. Í tilfelli fjármálakerfisins: Opinber fjármálaþjónusta sem tekur ekki sjálf gróða og tekur því ekki vexti. Hugsið um það augnablik, hver húsnæðiskostnaðurinn ykkar væri, ef lánin ykkar bæru ekki vexti.

Vaxtalaust fjármálakerfi mundi spara heimilunum og þjóðfélaginu öllu gífurlegt fé, sem mundi aftur nýtast til að byggja upp innviði landsins af öllu tæi. Óskorað fullveldi er forsenda þess að geta þetta, þar sem ESB-aðild mundi skuldbinda okkur til meiri markaðsvæðingar á flestum sviðum. Við erum fortakslausir andstæðingar ESB-aðildar, ekki vegna þess að við viljum geta stundað spillingu, heldur vegna þess að við þurfum fullveldið, með þeim rétti sem fylgir því, til þess að takast á við hana sjálf. Það mun enginn gera það fyrir okkur.

Það er fleira í pokahorninu hjá okkur, og það ættuð þið að skoða á heimasíðunni okkar: Alþýðufylkingin.is

Auðvitað er það synd að Vestmannaeyinga vanti á þennan lista, þótt þeir geti kosið hann. En því geta engir nema Vestmannaeyingar sjálfir breytt, með því að ganga til liðs við Alþýðufylkinguna og þannig hlutast til um að Eyjar eigi fulltrúa á listanum í næstu kosningum. Það er auðvelt að hafa uppi á okkur ef þið viljið gefa ykkur fram og ganga í flokkinn.

Vésteinn Valgarðsson

varaformaður Alþýðufylkingarinnar

Monday, October 24, 2016

11% eða ekki 11%?

Kári Stefánsson krefst þess, og tæpir 90.000 Íslendingar með honum, að 11% vergrar
Vésteinn Valgarðsson
landsframleiðslu verði varið í heilbrigðiskerfið. Nú skal ég síðastur manna mótmæla stórauknum framlögum til heilbrigðiskerfisins. En þessi tala er ekki heilög án fyrirvara.

Í Bandaríkjunum getur efnaðra fólk keypt sér bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Fátækt fólk fær ömurlega heilbrigðisþjónustu. Er það vegna þess að of litlum peningum sé varið í kerfið? Árið 2014 eyddu Bandaríkjamenn um 17% vergrar landframleiðslu í heilbrigðiskerfið. Mun meira en Íslendingar. Með mun verri árangri.

Munurinn liggur í rekstrinum. Í Bandaríkjunum er heilbrigðisþjónustan að mjög miklu leyti einkarekin og í gróðaskyni. Einkarekstur er eins og sníkill á kerfinu. Að auka framlögin er eins og að éta meira og meira, þótt maður sé með bandorm. Það er eins og að hella meira og meira í kerald sem aldrei fyllist, því botninn er suður í Borgarfirði.

Já, auðvitað þarf að stórauka framlög til heilbrigðismála. En það þarf líka að tryggja að þeir peningar fari í að bæta heilsu fólks en ekki í að skapa gróða fyrir einkarekin heilbrigðisfyrirtæki.

Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar 2008. Tilgangur þeirra er að auðvelda markaðsvæðingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Það gera þær með því að borga þeim sem framkvæmir aðgerðina. Það þýðir að aðgerðir einkarekinna læknastofa eru borgaðar úr sama vasanum og borgar aðgerðir á t.d. Landspítalanum. Þótt þær séu dýrari. Og þótt þær séu unnar af sömu læknunum. Þetta fyrirkomulag grefur m.ö.o. undan Landspítalanum. Tekur frá honum bæði peninga og vinnutíma sérfræðilækna, sem láta nægja að vera í hlutastarfi á spítalanum en vinna á arðbærari, einkarekinni stofu þess á milli.


Það þarf að stoppa í þetta gat um leið og framlögin eru aukin. Það þarf að leggja Sjúkratrygginar Íslands niður. Aukum framlög til heilbrigðiskerfisins og aukum gagnið sem þau framlög gera.

Vésteinn Valgarðsson
í 1. sæti á lista Alþýðufylkingarinnar
í Reykjavíkurkjördæmi norður

Kvennafrídagurinn

Alþýðufylkingin hvetur allar íslenskar konur til að taka sér frí kl. 14:38 í dag og taka þátt í
kvennafrídeginum til að sýna í verki hvað það munar mikið um vinnuframlag þeirra.

Dagskráin á Austurvelli byrjar kl. 15:15!

Baráttufundur Alþýðufylkingarinnar fimmtudagskvöld

Alþýðufylkingin heldur baráttufund fimmtudagskvöldið 27. október kl. 20:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Glæsileg dagskrá listamanna og ávörp frambjóðenda. Tækifæri til að kynnast frambjóðendum flokksins í návígi eða eignast eftirsótta boli og aðra eigulega muni með merki flokksins. Fjáröflunaruppboð. Gagn og gaman.
...allir velkomnir, nema nasistar og barnaníðingar.

Félagsvæðing fjármálakerfisins og tregðulögmál kerfisins

Þorteinn Bergsson bóndi, í 1. sæti Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, skrifar:
Félagsvæðing fjármálakerfisins er miðlægt atriði í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. Með henni hyggjumst við stórbæta hag almennings og fyrirtækja í landinu og þá segir sig sjálft að hagur
Þorsteinn Bergsson
ríkissjóðs batnar um leið. En hvernig á að koma á félagsvæðingu fjármálakerfisins? Eru þetta ekki bara draumórar? Hvað með að stofna samfélagsbanka, leysir það ekki vandann? Það segja sumir, en með hvaða peningum? Peningum ríkisins, væntanlega, það fást varla aðrir til að leggja í það, samfélagsbankinn á jú ekki að taka til sín hagnað.
Eignarhald ríkisbankanna
En þeir sem tala um samfélagsbanka sem einhverja lausn ættu að gá að því að það þarf reyndar ekki að stofna svona banka, ríkið á nú þegar banka (m.a.s. fleiri en einn). En því miður standa málin nú þannig að í stað þess að nota eigendavald sitt til að láta banka sína hætta öllu okri, hvort sem er í vaxtamun eða þjónustugjöldum, (m.ö.o. gera bankann að n.k. samfélagsbanka) lætur ríkið einhverja sjálfstæða stofnun, þar sem raðað er inn markaðstrúuðum, hægrisinnuðum kontóristum sjá um sína aðkomu að rekstri ríkisbankanna. Útkoman verður sú að þeir haga sér síst betur en einkabankar í okurstarfsemi sinni og ráðherrar (jafnvel svokallaðra vinstri flokka á sínum tíma) yppa bara öxlum og segja; ja,við ráðum þessu nú ekkert, Bankasýsla ríkisins fer með þessi mál. Þarna eru menn bara að skjóta sér undan ábyrgð og ef yfirboðarar Bankasýslu ríkisins hafa í dag ekki vald til að hlutast til um hvernig hún fer með eignarhlut ríkisins þarf einfaldlega að breyta lögum þannig að svo verði.
Tregðulögmál kerfisins
Markaðstrúarslagsíða þeirra þingmanna allra flokka sem nú sitja á þingi er vissulega stórt vandamál, en það á þó að vera tiltölulega auðvelt að leysa. Þingmenn eru lýðræðislega kjörnir og þeim má skipta út um leið og háttvirtum kjósendum þóknast að þurrka af gleraugunum og sjá hlutina eins og þeir eru. Verra er að eiga við það að hjá hinu ókjörna framkvæmdavaldi (t.d. ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra) er markaðstrúin og hægrimennskan oft svo rótgróin að jafnvel þegar þingmenn og ráðherrar vilja samfélaginu vel reynist þeim erfitt að þröngva þjóðþrifamálum í gegnum stjórnkerfið, ef þau ríma ekki við lífsviðhorf embættismannanna. Þótt embættismenn eigi erfitt með að ganga beint gegn skipunum frá ríkisstjórn er ótrúlegt hverju hægt er að áorka með útreiknuðum þvergirðingshætti og undanbrögðum ef viljinn til þess er nægur.

Félagsvæðing fjármálakerfisins er semsagt ekki gerleg NEMA að tekið sé á öllum hliðum málsins, allur góður ásetningur mun stöðvast á gúmmívegg kerfisins (eins og svo oft hefur gerst áður) nema þess sé gætt að bræða á hann göt áður en lagt er af stað og það ætlum við hjá AF okkur að gera. Og sú félagsvæðing er ein af forsendum þess að endurreisa megi ábyrgð og hlutverk ríkisins í íslensku samfélagi öllum til heilla.

Kvennafrídagur

Alþýðufylkingin hvetur allar íslenskar konur til að taka sér frí kl. 14:38 í dag og taka þátt í
kvennafrídeginum til að sýna í verki hvað það munar mikið um vinnuframlag þeirra.

Dagskráin á Austurvelli byrjar kl. 15:15!

Sunday, October 23, 2016

Í dag: Reykjanesbær + Kolaportið

Alþýðufylkingin heldur kynningarfund í Reykjanesbæ í dag: kl. 14 í Duus-húsi.
Auk þess verður flokkurinn með bás í Kolaportinu (bás nr. A23).
Komið og heilsið upp á okkur og kynnið ykkur stefnu flokksins!

Saturday, October 22, 2016

Í dag: Selfoss, Hvolsvöllur, Kolaportið

Alþýðufylkingin heldur kynningarfundi í dag:
kl. 13 í Tryggvaskála á Selfossi og
kl. 16 á Hlíðarenda á Hvolsvelli.
Auk þess verður flokkurinn með bás í Kolaportinu (bás nr. A23).
Komið og heilsið upp á okkur og kynnið ykkur stefnu flokksins!

Friday, October 21, 2016

Alþýðufylkingin í Suðurkjördæmi um helgina

Alþýðufylkingin heldur röð kynningarfunda í Suðurkjördæmi um helgina:
Laugardag kl. 13 í Tryggvaskála á Selfossi.
Laugardag kl. 16 á Hlíðarenda á Hvolsvelli.
Sunnudag kl. 14 í Duus-húsi í Reykjanesbæ.
Á fundunum verða efstu frambjóðendur á lista flokksins í Suðurkjördæmi: Guðmundur S. Sighvatsson, Erna Lína Baldvinsdóttir og Sigurjón S. Guðmundsson, auk formanns flokksins Þorvaldar Þorvaldssonar.
Kynning á stefnu flokksins og umræður.