Wednesday, August 24, 2016

Alþýðufylkingin auglýsir eftir frambjóðendum

Alþýðufylkingin undirbýr sig þessa dagana fyrir kosningar í haust. Hér með er auglýst eftir frambjóðendum sem vilja vera á framboðslista. Einu skilyrðin eru að vera á kjörskrá og að styðja stefnu flokksins um félagsvæðingu á fjármálakerfinu og öðrum innviðum samfélagsins. Áhugasamir hafi samband við uppstillingarnefnd í tölvupósti: althydufylkingin@gmail.com eða í síma 8959564 – líka ef fólk á annað erindi við flokkinn, s.s. að gerast félagar, skrifa undir meðmælalista með framboðinu, styrkja það fjárhagslega eða taka annan þátt í baráttunni.

Wednesday, July 20, 2016

Það sem lesa má úr „Brexit“

Almenningur vann
Úrslit atkvæðagreiðslunnar um Brexit voru merkileg og sögulegur stórviðburður. Þarna tókust á almenningur sem vildi ráða eigin málum og hins vegar yfirþjóðlegt vald ESB-elítunnar. Almenningur vann. Annars vegar stóð hin fjölþjóðlega ESB-elíta, stjórnvöld Bretlands, fjármála- og bankavaldið, voldugustu fjölmiðlarnir, hins vegar almenningur. Almenningur vann. Ekki bara það. Nokkrir helstu ráðamenn Evrópuríkja gerðu sitt besta, Stoltenberg NATO-framkvæmdastjóri gekk fram fyrir skjöldu – og Obama forseti kom yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Það dugði ekki til og almenningur vann. Í ESB-samhengi var kosningaþátttakan alveg óvenjulega mikil, 72%.

Eftir atkvæðagreiðsluna hefur her af breskum lögfræðingum lýst yfir að atkvæðagreiðslan sé auðvitað bara ráðgefandi. Og það er alls óvíst að hún verði staðfest af þinginu. Ég á eftir að sjá að Bretland yfirgefi ESB í þessari lotu. Valdakerfið í heilu lagi vinnur gegn slíku og vilji almennings fær yfirleitt litlu að ráða.

Hvað segja nú ráðamenn Brusselvaldsins? Þeir hrökkva ekki hátt þótt almenningur sé með uppsteyt. Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands og franski starfsbróðir hans, Ayrault, lögðu í júnílok fram stefnuplagg þar sem segir að svarið við Brexit sé meiri samruni innan ESB og minna þjóðlegt sjálfstæði aðildarríkja, m.a. á efnahags- og hernaðarsviði. Um þetta skrifaði Daily Mail 27 júní. Það sama er uppi á teningnum hjá forseta Evrópuþingsins, Martin Schulz, í grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung 3. júlí. Þar segir hann að rétt svar við atkvæðagreiðslunni í Bretlandi sé að „breyta Framkvæmdastjórn ESB í raunverulega evrópska ríkisstjórn“, sem sagt taka stórt skref í átt til yfirþjóðlegs evrópsks stórríkis. Í áðurnefndri yfirlýsingu fylgdi Schulz eftir stefnumörkun sem hann gaf frá sér bara nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna ásamt hinum fjórum forsetum ESB: Juncker forseta Framkvæmdastjórnarinnar, Tusk forseta Ráðherraráðsins,  Dijsselbloem forseta Evruhópsins og Draghi forseta Evrópska Seðlabankans. Þar kemur m.a. fram að fyrir 2025 skuli stofnanir ESB ákvarða fjárlög fyrir einstök aðildarlönd. Skoðanakannanir sýna hins vegar að í engu aðildarlandi vilja kjósendur aukið vald til stofnana ESB. En hvorki það né úrslit Brexit-kosninganna hefur nein áhrif á afstöðu Schulz og þessara toppmanna til áframhaldandi samrunaþróunar í álfunni.

ESB og lýðræðið
Þessi einbeitta stefna ESB-toppanna er ekki ný, fyrirlitning þeirra á  lýðræðinu ekki heldur. Þetta er stefna sem evrópska elítan hafa fylgt frá því upp úr 1960, sú áætlun að skapa evrópskt stórríki án þjóðríkja, með einn gjaldmiðil, einn her og eina ríkisstjórn. Almenningur hefur verið þarna Þrándur í Götu og það er meginreglan að hann hefur verið þversum á móti slíkum plönum. Elítan heldur sínu striki óháð því – eins og ofannefnd viðbrögð við Brexit sýna – en velur að leyna áformum sínum og taka samrunann í áföngum.

Kapítalískar efnahagseiningar þjappast sífellt saman, éta hver aðra og þenjast út. Samrunaferlið í ESB er knúið áfram af gróðasókn stórauðvalds sem ætlar sér að keppa við hina risana - Bandaríkin, Japan, Kína... Sálin í ESB hefur verið „fjórfrelsi“ markaðsaflanna, frjálst flæði fjármagns, vöru, vinnuafls og þjónustu, sem sagt efnahagsleg frjálshyggja og hnattvæðingarreglur auðhringanna sem vilja losna við þjóðríki og landamæri.

Jafnframt þessu hefur ESB gengið í bandalag við Bandaríkin og myndar með þeim NATO-blokkina sem rekur harðvítuga útþenslu- og hernaðarstefnu, m.a. í Austur-Evrópu, Miðausturlöndum og ógnar heimsfriði.  

Þegar nú kapítalísk kreppa sverfur að og endurreisa þarf gróða fjármálavaldsins og auðhringanna eykst þörf þessa mikla auðvaldsprósjekts fyrir miðstýringu. Lýðræðinu er miskunnarlaust vikið til hliðar og skrifræðisleg miðstjórn tekur völdin, hin erópska toppelíta. Hún er ekki þjóðkjörin heldur skipuð af Brusselvaldinu og er einkum fulltrúi hins evrópska fjármálavalds. Fremst í þeim flokki fer „Þríeykið", Framkvæmdastjórn ESB og Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS. Þríeykið setur sig nú ofar bæði þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan hefur komið harðast niður. Þessi auðræðiselíta hefur þannig afnumið þingræði og sjálfsákvörðunarrétt einstakra aðildarlanda að miklu leyti og knúið fram harkalega aðhaldspólitík sem skerðir réttindi launafólks, einkavæðir ríkiseignir o.s.frv. – á forsendum evrópsks (einkum þýsks) fjármálavalds.

Raunveruleikinn er því sá að Evrópusamruninn svokallaði er samruni stórauðauðvaldsins þar sem sjálfsákvörðun þjóða er síminnkandi og möguleiki almennings til áhrifa hverfandi. Er það ekki ástæða þess að Bretar kusu að fara út?

Umræðutæknin um Brexit
Annað er helst að heyra í umræðunni um Brexit-atkvæðagreiðsluna hér á landi. Eftirfarandi ummæli Egils Helgasonar um voru nokkuð dæmigerð fyrir stóran og áberandi hluta umræðunnar.
„Því miður eru hræðileg teikn á lofti – alls staðar sjáum við uppgang þjóðernispópúlisma, haturs og öfga. Hætt er við að þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi virki eins og herhvöt á þjóðernishreyfingar út um alla Evrópu. Nú sjá þær sitt tækifæri. Og við erum ekki bara að tala um þjóðernissinna, því innan um eru alvöru fasistar. Við sjáum aftur vofu fasismans rísa upp í Evrópu.“

Þessi orðræða er ekki séríslensk, ekki heldur takmörkuð við evrópuvinstrið. Þetta er ákveðin umræðutækni og drottnunartækni upprunnin úr höfuðstöðvum ESB, að skilgreina alla andstöðu við hinn skrifræðislega Evrópusamruna sem hægri öfgastefnu. Andstaðan við „evrópuhugsjónina“ um hið yfirþjóðlega er stiplað sem þjóðernishyggja og þjóðremba.

Andstaða alþýðu við auðræði, skrifræði og fullkominn lýðræðisskort evrópusamrunans er óhjákvæmileg og lífsnauðsynleg. Gallinn er sá að stóru evrópsku vinstri flokkarnir (og vinstri má vel hafa innan gæsalappa) hafa skrifað upp á ESB-pólitíkina í heild. Þeir þylja ræðuna um ESB sem samtök til að „tryggja frið“, afnám þjóðlegrar sjálfsákvörðunar kalla þeir „samábyrgð um yfirþjóðlegan vanda", blóðugar aðhaldsaðgerðir á suðurjaðri ESB í þágu fjármálavaldsins kalla þeir „sparnaðaraðgerðir", „ögunaraðgerðir" og „björgunarpakka". Og sjálft „fjórfrelsi“ markaðsaflanna reyna þeir að gera að einhvers konar vinstrimennsku! Þessir flokkar hafa löngu leyst tenginguna við verkalýðsstétt og gefið sig á vald fjölþjóðlegrar auðræðiselítu. Frekar en að snúast um stéttarhagsmuni vilja þeir að hægri og vinstri snúist um það að vera með eða á móti fjölmenningu (sem er ein yfirskrift evrópusamrunans).

Hægripopúlisminn og verkalýðurinn
Þetta hefur leitt til þess að það hlutverk að berjast gegn hnattvæðingu fjölþjóðlegs auðvalds – og yfirþjóðlegu valdi ESB sérstaklega – hefur æ víðar fallið í skaut hægripopúlískra flokka. „It is time to take back control of our country“, sagði Nigel Farage leiðtogi UKIP-flokksins  fyrir Brexit-atkvæðagreiðsluna. Hægripopúlískir flokkar taka að sér að verja þjóðlegan sjálfsákvörðunarrétt, berjast gegn því að innflutningur frá lágkostnaðarlöndum brjóti niður smáiðnað og staðbundið atvinnulíf, snúast gegn frjálsu flæði á ódýru vinnuafli sem grefur undan réttindum og atvinnuöryggi launafólks, í mismiklum mæli fylgir því líka andstaða gegn innstreymi flóttafólks, útlendingahræðsla, íslamófóbía o.fl. Fyrir vikið hafa helstu fórnarlömb hins yfirþjóðlega auðræðis, nefnilega verkalýður og alþýða, streymt inn í þessa flokka. Popúlistarnir hafa stillt sig inn á þetta og tekið upp hefðbundin baráttumál vinstri flokka s.s. velferðarkefið. Það markar þó flokkana að þeir eru hægriflokkar og játast kapítalismanum sjálfum en hafna aðeins hinu ríkjandi, hnattvædda formi hans. Stefna þeirra byggist á fortíðarþrá og ósk um að kapítalisminn snúi við þróun sinni.

Fyrir tveimur árum skrifaði ég eftirfarandi um hina hægripopúlísku tilhneigingu: „Ný pólitísk skipting er orðin á milli frjálslyndrar frjálshyggju og íhaldssemi. Það er nær að kenna hina breiðu hægrifylkingu ESB-andstæðinga við „alþýðlegt íhald“ en hægri öfgar. Hún snýst nefnilega gegn elítunni. Það má vísast bendla hana við andfrjálslyndi, en ekki andlýðræði. Hún hafnar því afsali lýðræðis og fullveldis sem ESB stendur fyrir, þetta „andlýðræðislega skrímsli“ eins og Marine Le Pen kallar það réttilega.“

Vinstri sinnað millistéttarfólk í Norður London óttast að það hætti að fá ódýrar au pair barnapíur og þjónustustúlkur frá Austur Evrópu gangi Bretar úr ESB, og kallar nú meirihlutann, fylgendur Brexit, þjóðrembur, rasista og eitthvað þaðan af verra sem ekki eigi að fá að ráða framtíð landsins.

Hvað var það sem réði úrslitum um Brexit? Þar vó þyngst að verkalýður stórra og smárra bæja Englands hafði fengið meira en nóg – af markaðsfrelsi Evrópumarkaðarins, frjálsu flæði fjármagns inn og út, sem hefur tekið frá honum iðnaðinn og störfin og grafið undan verkalýðshreyfingunni m.a. með ódýru innfluttu vinnuafli. Það að vilja að stefnan í innflytjendamálum eigi að vera ákvörðuð í þjóðríkinu sjálfu er reyndar ekki það sama og rasismi. Það var á hefðbundnum Labour-svæðum sem fólk streymdi á kjörstaði og kaus útgöngu. Þetta voru sem sé mótmæli verkalýðs gegn Brusselvaldi, gegn Cameron og líka gegn Labour. Uppreisn hans gegn elítunni og valdinu. Walesonline skrifaði stuttu fyrir atkvæðagreiðsluna: „Skoðanakannanir hafa sýnt að menntastétt og fólk í atvinnurekstri og stjórnun eru líklegust til að greiða atkvæði með áframhaldandi veru í ESB. Þessi síðasta skoðanakönnun fyrir ICM og Guardian, gerð 29-30. maí bendir til að sú stétt sem líklegust sé til að vilja útgöngu sé sú sem merkt er C2 – skilgreind sem fagmenntaður verkalýður. Í sömu könnun hafa minna menntaður verkalýður og fólk á bótum eða í hlutastörfum líka greinilega tilhneigingu til að kjósa útgöngu.“

Wednesday, June 29, 2016

Vesturblokkin og Sýrlandsstríðið

Þórarinn Hjartarson skrifar:

Alla 21. öld hefur Vesturblokkin stundað hernaðaríhlutanir í Miðausturlöndum og nærsveitum. Stríð í seríu: Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi, en valdaskiptaáformum í Íran hefur verið vikið til hliðar, rétt í bili.

STRÍÐSMARKMIÐ: að tryggja full yfirráð á þessu efnahagslega og hernaðarlega kjarnasvæði. Framantalin lönd höfðu af ólíkum ástæðum ekki látið nógu vel að stjórn USA og Vestursins, sem settu þess vegna „valdaskipti“ þar á dagskrá. Þeirri dagskrá er fylgt fast þótt það kosti stríð, rústun ríkjanna og/eða sundurlimun. 

„MANNÚÐARÍHLUTUN“: Yfirskriftir syrjaldanna eru mismunandi. Yfirskrift innrásar í Afganistan var að „ná hryðjuverkamönnum“ en í Írak að „finna gjöreyðingarvopn“. Hvort tveggja er löngu afhjúpað sem uppspuni. Stríð NATO-velda í Líbíu hafði vandaða og söluvæna yfirskrift: „íhlutun í mannúðarskyni“, vegna árása Gaddafís á þegna sína!

EN SÝRLANDSSTRÍÐIÐ? Afskipti Vestursins af Sýrlandi eru sett í flokk „mannúðaríhlutana“. Sagan sem sögð er á Vesturlöndum er að misþyrmingar Assadstjórnarinnar á eigin þegnum hafi kveikt „borgarastríð“ – vestræna fréttaveitan malar þá frétt í sífellu, en talar líka stundum um átökin sem „trúardeilur“. „Alþjóðasamfélagið“ ku því hafa „verndarskyldu“, ástandið kalli á íhlutun í mannúðarskyni. Þó yfirskriftir fyrri íhlutana hafi augljóslega reynst fals gengur furðu vel að selja stríðið með þessari yfirskrift. Vesturlönd standa þarna sameinuð, nema helst í afstöðunni til sýrlenskra flóttamanna. Íslensk pressa tekur svo vel undir söng Vestursins að aldrei heyrist mishljómur. Aldrei.

FJÓRSKIPT STRATEGÍA Í SÝRLANDI: Aðferð Vestursins til að brjóta andstöðu Sýrlands er fjórskipt: Viðskiptabann, diplómatísk einangrun, stuðningur við „uppreisn“, hernaðarinnrás.

a) Viðskiptabann. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hefur hert það síðan) en ESB gerði hið sama 2013. Þetta á stóran þátt í þjáningum Sýrlendinga og landflótta. Ísland gengur í sama takt og hefur engin viðskipti við Sýrland (en hefur t.d. veruleg viðskipti við Tyrkland, Sáda og Ísrael)

b) Diplómatísk einangrun. Íslenska vinstri stjórnin, líkt og Vesturblokkin öll, viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa – National Coalition – sem lögmætt sjórnvald Sýrlands. Þessi viðurkenning þýðir að Vestrið – Ísland með – stillir sér á bak við annan aðilann í sk. borgarastríði, gefur grænt ljós á uppreisn gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Þessi afstaða Íslands þýðir einnig að hjálparstarf héðan fer til uppreisnarafla og er því undir formerkjum „valdaskipta“.

c) Stuðningur við uppreisn. Á pappírnum heitir það stuðningur við „hófsama uppreisnarmenn“ en Joe Biden varaforseti USA sagði það skýrt: „hófsöm miðja var aldrei til“ í sýrlensku uppreisninni. Uppreisnin er frá byrjun borin uppi af trúarvígamönnum. „Borgarastríð“ og „uppreisn“ eru auk þess rangnefni, í fyrsta lagi af því stór hluti andstöðunnar eru erlendir vígamenn (Wikipedía áætlar að þeir „may now number more than 11.000“). Í öðru lagi eru hryðjuverkaherirnir (og sk. uppreisn) fjármagnaðir utanlands frá, eru „staðgenglar“ erlendra velda. Frá upphafi hefur NATO-landið Tyrkland lagt „uppreisninni“ til aðflutningsleiðir og aðdrættina, ekki síst vopnasendingar, en Sádar og Persaflóaríkin sjá mest um fjármögnunina. Að baki stendur Vestrið, enda Sádar og Tyrkir (auk Ísraels) mikilvægustu bandamenn Vesturblokkarinnar í Miðausturlöndum.

d) „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ hóf lofthernað yfir Sýrlandi (og Írak) í desember 2014, gegn vilja sýrlenskra stjórnvalda og þ.a.l. gegn alþjóðalögum. Aðilar bandalagsins eru Bandaríkin og Evrópustórveldin, ásamt helstu stuðningsríkjum ISIS, Tyrklandi og Persaflóaríkjum. Skal því ekki undra að þetta „stríð“ hafði þveröfug áhrif í því að veikja ISIS. Ekki fyrr en Rússar mættu á svæðið til aðstoðar við sýrlenska herinn tók ISIS að láta undan síga. Viðbrögð Vestursins núna við sókn Sýrlandshers eru endurskipulagning: styðja við sveitir Al Kaída/Al Nusra (sem reynt er að skíra „hófsama“) og einnig sveitir Kúrda á ákveðnum svæðum jafnframt því að senda inn eigin sérsveitir, bandarískar, franskar, breskar og þýskar. Öll áhersla er lögð á að hindra að Sýrlandsher skeri á aðflutningsleiðir „uppreisnarinnar“ frá Tyrklandi, einkum að hann nái aftur borginni Aleppo, sem gæti ráðið úrslitum í stríðinu. Stríðsmarkmið Vestursins eru þau sömu, hafa þó hliðrast frá „valdaskiptum“ í Damaskus yfir í sundurlimun Sýrlands í a.m.k. þrennt eftir þjóðerna- og trúarlínum, líkt og Írak.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu og svo á Vísi þ. 23. júní sl.

Thursday, June 2, 2016

Alþýðufylkingin fundar á Akureyri á laugardag

Alþýðufylkingin boðar til spjallfundar á Café Amour Ráðhústorgi 9, Akureyri, laugardaginn 4. júní kl. 14.
Rætt verður um stjórnmálaástandið og mikilvægustu verkefnin framundan.
Þá verður rætt um undirbúning kosninga og möguleika á starfsemi norðan heiða.

Norðlendingar eru hvattir til að mæta.

Tuesday, May 31, 2016

Stríð um heimsyfirráð: Hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Þórarinn Hjartarson skrifar 

„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.

Klúbbar þessir hafa verið mjög samstíga í efnahagsstefnu og pólitík. Það helgast einfaldlega af því að þarna eru saman komnir fulltrúar vestrænnar toppelítu og voldugustu einokunarauðhringanna. Harðasti og voldugasti kjarninn er fáveldi bandarískra fjármálarisa og risaauðhringa, ekki síst í hergagnaiðnaðinum (hergagnaframleiðsla plús einkafyrirtæki í stríðsrekstri, military-industrial complex kallaði Eisenhower það). Mikil krosseignatengsl þar á bæ gerir kjarnan gríðarlega samþjappaðan, og krosstengsl einkenna líka klúbbana, margar sömu persónur rokka á milli þeirra og sitja í stjórnum eins klúbbs á eftir öðrum.

Hugveituklúbbarnir hafa verið leiðandi í strúktúrbreytingum sem orðið hafa í heimskapítalisma seinni áratuga. Þegar ríkjandi efnahagsstefna á Vesturlöndum breyttist á 8. og 9 áratug frá keynesisma til herskárrar nýfrjálshyggju Chicago-skólans undir forustu Reagans og Thatcher hafði sú stefna áður verið tekin í þessum klúbbum. Eins var um hina miklu hnattvæðingarþróun á 10. áratugnum, hnattvæðingu auðhringanna í „einpóla“ heimi. Stefna vestrænna hnattvæðingarsinna var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði fyrir vestræna fjölþjóðlega auðhringa. Þar var og er World Economic Forum (WEF) í fararbroddi og má vel kallast „Alþjóðaefnahagsstofnun hnattvæðingarsinna“ (heimild). Ekki síður en í efnahagspólitík hafa allir klúbbarnir mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu og hnattræna hagsmuni risaveldisins USA.

Frumkvæðið að evrópska samrunanum kom frá Ameríku
Framantaldar hugveitur hafa lengi verið mjög gíraðar á samvinnu N-Ameríku og V-Evrópu. Wikileaks birti 2009 fundargerðir frá Bilderberg-fundi 1955 þar sem eitt helsta umfjöllunarefnið var „sameining Evrópu“: „Að ná á sem skemmstum tíma hæsta stigi sameiningar, og byrja á sameiginlegum evrópskum markaði.“ Á sama fundi var m.a.s. talað um að stefna bæri að „sameiginlegum gjaldmiðli“ sem líka myndi „nauðsynlega útheimta stofnun pólitísks miðstjórnarvalds.“ (heimild) Þetta var tveimur árum áður en Efnahagsbandalag Evrópu var stofnað. Bandarískt frumkvæði að evrópskum samruna var samt komið fram enn fyrr. Í september 2000 skrifaði Ambrose Evans-Pritchard í London Telegraph: „Nýbirt  leyniskjöl Bandaríkjastjórnar sýna að bandarísk leyniþjónusta rak herferð á sjötta og sjöunda áratugnum til að fá aukinn gang í það að byggja upp sameinaða Evrópu. Þeir stofnuðu og stýrðu evrópskri samrunahreyfingu... Minnisblað dagsett 26. júlí 1950 útlistar herferð til að koma á fullgildu evrópsku þingi. Það er undirritað af hershöfðingjanum William J. Donovan, yfirmanni Office of Strategic Services sem var undanfari CIA.“ (heimild)

Heimselítunni er ekkert um lýðræði eða sjálfsákvörðunarrétt þjóða gefið gefið, og frá sjónarhólnum í Washington er augljóslega auðveldara og praktískara að hafa stjórn á einni ríkisstjórn í Vestur-Evrópu, ESB, en mörgum ólíkum evrópskum ríkisstjórnum. Evrópa hefur nú þróast í kjarna og fátækan jaðar. Þegar kreppa sverfur að tekur skrifræðisleg miðstjórn völdin, sú elíta  er ekki þjóðkjörin, hún er fulltrúi fjölþjóðlegs fjármálavalds. „Þríeykið“ – framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS – setur sig hiklaust ofar þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Það brást heldur ekki að ESB varð einn nánasti og mikilvægasti bandamaður Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Eftir lok kalda stríðsins verður þetta æ skýrara. Í Íraksstríðinu frá 2003 hikstaði samstarfið pínulítið en helstu stríðsátök síðustu ára – í Afganistan, Líbíu, refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi (og Sýrlandsstríðið líka þótt það sé flóknara dæmi, diplómatískt og í framkvæmd)  – hafa í praksís verið samstilltar  aðgerðir bandamannanna stóru, USA og ESB (með Ísrael og fylgiríkin í Miðausturlöndum sem mikilvæga meðspilara).

Heimsríkisstjórn
Ekki þarf að koma á óvart að í hugveituklúbbunum umræddu er oft rætt um heimsríkisstjórn. Segja má að hnattræn ríkisstjórn sé á vissan hátt rökrétt lokamark í samþjöppunar- og hnattvæðingarþróun kapítalismans. Heimsríkisstjórn tilheyrir mjög langt genginni hnattvæðingarþróun í einpóla heimi. Á hinn bóginn er skiljanlegt að slíkt stefnumið sé ekki mjög áberandi í opinberum málflutningi og yfirlýsingum.

Bilderberg Group er kannski voldugasti hugveituklúbbur Vesturblokkarinnar. Á fundi hans árið 1991 – árið sem Sovétríkin leystust upp – var David Rockefeller mættur og horfði nú fram á veginn: „Við erum þakklát Washington Post, New York Times, Time Magazine og öðrum þýðingarmiklum útgáfum, en stjórnendur þeirra hafa tekið þátt í samkomum okkar í nærri 40 ár og samt varðveitt leynd þeirra... Það hefði verið ómögulegt fyrir okkur að þróa áform okkar um heiminn ef við hefðum orðið að búa við umfjöllun fjölmiðlanna þessi ár. En heimurinn er nú háþróaðri og tilbúnari til að ganga í átt að heimsríkisstjórn (world government). Hið yfirþjóðlega vald (supernational sovereignty) menntaelítu og alþjóðlegara bankamanna er vissulega æskilegra en sú þjóðlega sjálfsstjórn sem hefur verið við lýði undanfarnar aldir.“ (heimild)

Nú var David Rockefeller er ekki einhver Jón Jónsson frekar en faðir hans eða afi. Rockefellarnir eru mesta og elsta ættarveldi  bandarísks efnahagslífis. Ekki bara það. James Wolfenssohn, sem sjálfur var bæði fyrrverandi forseti Alþjóðabankans og stjórnarmaður hjá Bilderberg Group og Council of Foreign Relations (CFR), lét svo um mælt á fundi í CFR 2005 að David Rockefeller væri „sú persóna sem hafði kannski mest áhrif á líf mitt og starf... Í raun má með sanni segja að eingin einstök fjölskylda hafi haft meirri áhrif á málefnið „hnattvæðing“ en Rockefellarnir. (heimild)

Hugsun Rockefellers um heimsríkisstjórn hefur ekki efnisgert sig í einu stjórnarráði á heimsvísu. En auðvelt er að benda á WTO, AGS, Alþjóðabankann, ESB, komandi TISA og TTIP-samninga og svo hernaðararminn, NATO, sem þenur sig út án enda. Allt eru þetta einingar og sprotar í því framkvæmdavaldi sem setur sig ofar ríkisstjórnum, kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og meir og meir virkar sem heimsríkisstjórn. Valdamiðjan er í Washington og nærsveitum og heilastarfsemin fer mjög fram í áðurnefndum hugveituklúbbum. Stjórnmálafræðingurinn og bandaríski heimsvaldasinninn Samuel P. Huntington vísaði til World Economic Forum þegar hann talaði um heimselítuna og bjó til hugtakið „Davos-maðurinn“: Þessir elítumenn „hafa litla þörf fyrir þjóðarhollustu, líta á landamæri ríkja sem hindranir sem til allrar hamingju séu hverfandi og líta á ríkisstjórnir sem leifar úr fortíðinni sem hafa þann eina tilgang að greiða fyrir aðgerðum hinnar hnattrænu elítu.“ (heimild)

Hugveituklúbbarnir umræddu eru ekki neinar „óháðar klakstöðvar hugmynda“ heldur eru þeir umræðuklúbbar þeirra allra auðugustu í Vestrinu eins og ég nefndi. Við það má bæta: Auðmagnið, frjálsa framtakið og markaðsöflin flæða ekki bara um löndin af sjálfsdáðum. Thomas Friedman sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times segir:


„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ (heimild)

Miðflóttaöflin
En það eru fleiri hneigðir að verki í kapítalismanum en endalaus samþjöppun auðs og valds. Kapítalískt hagkerfi samanstendur jú af innbyrðis keppandi auðmagnseiningum. Og einstök kapítalísk hagkerfi þróast ójafnt. Sumar einingar og sum hagkerfi sækja á meðan önnur staðna. Ein afleiðing þess er bilkvæmar styrjaldir milli heimsvelda, eins og heimsstyrjaldirnar tvær. Og enn gerir sú hneigð sig gildandi. Efnahagsþróunin skóp þess vegna smám saman bresti í hina gullnu mynd sem áðan var nefnd, myndin af heimi með „hnattvæðingu auðhringanna í einpóla heimi“ tók að brotna upp. Ný efnahagsveldi sigldu upp að hlið Bandaríkjanna í kepninni um heimsmarkaðinn og tóku að verja eigin hagsmuni í stað þess að þjóna hinni vestrænu hnattvæðingu – og síðan í vaxandi mæli að skáka vestrænum auðhringum á heimsmarkaðnum. Þessi efnahagsveldi tóku að reka það sem Chossudovsky í upphafstilvitnuninni nefnir „þjóðlegan kapítalisma“. Hin hestu þessara ríkja eru skammstöfuð BRICS – Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Þegar þau koma saman mynda þau öflugan valdapól, mótpól við Vestrið. Vladimir Pútín er gott dæmi um „þjóðlegan kapítalista“ sem þjónar nú rússneskum kapítalisma, ekki vestrænum auðhringum og vestrænni hnattvæðingu líkt og fyrirrennarinn Jeltsín gerði. Öflugasta nýja efnahagsveldið, Kína, er fyrir nokkru orðið mesti iðanaðarútflytjandi heims og samkvæmt útreikningum AGS fór Kína árið 2014 fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims. Dollarinn sem haft hefur stöðu sem allsherjargjaldmiðill allra alþjóðaviðskipta – sem var grundvöllur undir „dollaraimperíalismanum“  – er að missa þá stöðu. (heimild)

En þessi efnahagsþóun frá einpóla heimi til fjölpóla heims fær ekki að fara sínu fram á forsendum efnahagslífsins. Strategistarnir í Washington líta svona á málið: Að óbreyttu tapa Bandaríkin í efnahagsstríðinu og bandarísk heimsyfirráð eru í stórkostlegri hættu. Til að mæta hinni óhagstæðu þróun í keppninni um heimsmarkaðinn þarf að styrkja pólitísk og hernaðarleg yfirráð Vestursins, enda liggja yfirburðir þess fyrst og fremst á hernaðarsviðinu, og þá yfirburði verður að nota. Viðbrögðin sýna sambland af miklum ótta og miklum hroka, sem er stórhættuleg blanda.

Stríð okkar tíma snúast einmitt um þetta, heimsyfirráð. Þegar við skoðum hvert heimsvaldasinnar beina hernaðarskeytum sínum og leitum orsaka helstu styrjalda og átaka á 21. öldinni – Írak, Afganistan, Líbía, Úkraína, Sýrland, Íran, Jemen – verðum við því öðru fremur að íhuga hernaðarlegt mikilvægi viðkomandi landa.

Alla þessa öld hafa Bandaríkin hagað sér eins og  eins og gamall mannýgur híðisbjörn vakinn af dvala sem uppgötvar að keppinautar eru komnir á óðal hans. 11. september 2001 var notaður til að koma endurnýjaðri hernaðarstefnu á, þegar Bandaríkin og NATO lýstu yfir hnattrænu „stríði gegn hryðjuverkum“. Síðan þá hefur Vesturblokkin óumdeilanlega verið „stríðsblokkin“. Bandaríkin og NATO líða nú engu ríki að sýna snefil af sjálfstæði. Bandaríkin með bandamönnum beita yfirburðum sínum og valdi til að einangra alla sem ekki hlýða, til að deila og drottna, grafa undan stöðugleika slíkra ríkja (destabilize) og koma á „valdaskiptum“.

Hvaða lönd eru dæmd til „valdaskipta“? John Pilger orðar það svo og talar þá fyrir munn Vestursins: „Nafn óvina „okkar“ hefur breyst gegnum árin, frá kommúnisma til íslamisma, en almennt er það sérhvert samfélag sem er óháð vestrænu valdi og er á hernaðarlega mikilvægu og auðlindaríku svæði, eða einfaldlega býður upp á valkost við vestræna drottnun.“ (heimild)

Glundroðaveldið
Af að horfa á aðferðir gamla risaveldisins, Bandaríkjanna, á 21. öldinni hefur hinn virti brasilíski höfundur og samfélagsrýnir Pepe Escobar kallað þau „glundroðaveldið“ og hefur gefið út bók með því nafni (Empire of Chaos, 2014). Nafngiftin skýrist í fyrsta lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) er svo miklu betra í því að rífa niður og eyðileggja en að byggja upp og í öðru lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) kýs glundroðann með eftirfarandi rökum: Ef við getum ekki drottnað yfir alþjóðakerfi byggðu á reglum hnattvæðingar munum við drottna yfir alþjóðakerfi byggðu á glundroða. Hugtak Escobars hefur af ærnum ástæðum fengið víða úbreiðslu og á sama hátt tala menn nú t.d. um hina herskáu Hillary Clinton sem „Queen of Chaos“ o.s.frv.

Herskáir íslamistar bera ekki aðeins uppi hryðjuverkaógnina – og gefa með því heimsvaldasinnum tilefni til endalausra íhlutana. Jafnhliða því eru herskáir íslamistar helstu málaliðar Bandaríkjanna og Vestursins í því að grafa undan stöðugleika og koma á „valdaskiptum“ í útvöldum löndum í íslamska heiminum. Þannig eru þeir leynivopn heimsvaldasinna, afar haganlega smíðað vopn. Þegar málum er svona fyrir komið er það efni í endalausan glundroða. Og þegar sá sem berst er sami aðili og sá sem barist er við er það efni í endalaust stríð.

Ég ætla ekki að rekja þennan hernaðarferil Vesturblokkarinnar en get bent á eigin greinar á vefnum mínum Eldmessu, t.d. þessa grein hér.  

Lengi komst Vestrið áfram með yfirgang sinn án þess að mæta teljandi andstöðu en á síðustu árum hafa helstu keppinautarnir, einkum Rússland og Kína, í vaxandi mæli myndað skipulega andstöðu gegn þeirri yfirþyrmandi drottnunarstöðu Vestursins. NATO fékk frelsi til að kyrkja Líbíu. Sýrland væri að líkindum farið sömu leið nema af því Rússland og Kína beittu neitunarvaldi í SÞ og af því Sýrland nýtur herverndar frá Rússum (án þess að ég horfi framhjá kröftugri baráttu Sýrlendinga sjálfra gegn féndum sínum). En viðbrögð Vestursins við þessari andstöðu keppinautanna eru afskaplega herská. Um það skrifar John Pilger í nýrri grein sinni, Heimsstyrjöld er byrjuð. Rjúfið þögnina:

„Á undanförnum átján mánuðum hefur mesta uppbygging herstyrks frá síðari heimsstyrjöld – undir forustu Bandaríkjanna – átt sér stað á vesturlandamærum Rússland. Ekki frá því Hitler réðist inn í Sovétríkin hafa erlendir hermenn boðað svo áþreifanlega ógn fyrir Rússland.“ Og enn fremur: „Bandaríkin umkringja Kína með neti herstöðva, með skotflaugum, orustusveitum, kjaranorkuberandi sprengjuvélum. Þessi banvæni hringbogi teygir sig frá Ástralíu til eyjanna í Kyrrahafi, Maríueyja, Marashallseyja og Guam, til Filipseyja, Tælands, Ókinava, Kóreu og yfir Evrasíu til Afganistans og Indlands.“ (heimild)

Rússlandi og Kína er í vestrænni meginstraumspressu stillt upp sem helstu ógnunum við heimsfriðinn, og Hillary Clinton og slíkir líkja Pútín við Hitler. Því til stuðnings er bent á hernám Rússa á Krím 2014 og manngerðar eyjar og flugvelli Kínverja við Spratly-eyjar í Suður-Kínahafi frá 2013-14. Filipseyjar hafa – í samráði við Bandaríkin – hafið deilu við Kína um yfirráð á eyjunum. Í grein sinni bendir Pilger á að vestræn meginstraumspressa spyrji aldrei af hverju Rússar hafi ákveðið að hernema Krím og „enginn blaðamaður í vestrænni meginstraumspressu spyr af hverju Kína sé að byggja flugvelli í Suður-Kínahafi.“ Kína hefur gegnum söguna gert tilkall til Spratly-eyja rétt eins og Rússland hefur sögulega haft yfirráð á Krím. Þetta er ekkert nýtt. Hið nýja er hið gríðarlega hernaðrbrölt Vesturvelda við landamæri og lögsögu Rússlands og Kína. Gæti það skýrt herská viðbrögð þessara gömlu stórvelda? Vestræn pressa er ein samhangandi áróðursmaskína og þetta er ein þeirra spurninga sem ekki má spyrja.

Monday, May 23, 2016

Opinn fundur Alþýðufylkingar um þingkosningar 25. maí

Opinn félagsfundur Alþýðufylkingarinnar um kosningarnar framundan miðvikudaginn 25. maí kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, Reykjavík.
Formaðurinn, Þorvaldur Þorvaldsson, kynnir drög að kosningastefnuskrá og kosningaundirbúning.
Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið.

Thursday, May 19, 2016

Þorvaldur í sjónvarpsviðtali á Hringbraut

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi og ræddi þar starf og stefnu flokksins. Horfið á þáttinn hér.